Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 329/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 329/2021
Fimmtudaginn 14. október 2021

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 9. júní 2021,  um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir tímabilið 27. febrúar 2020 til 2. apríl 2020.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 27. febrúar 2020, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Í kjölfarið var óskað eftir að kærandi legði fram staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi lagði fram slíka staðfestingu frá árinu 2014 en var bent á að skila þyrfti nýrri staðfestingu. Svar Vinnumálastofnunar barst Hafnarfjarðarbæ í september 2020 og var kæranda þá tjáð að hann þyrfti að senda inn nýja umsókn um fjárhagsaðstoð þar sem almennt væri gildistími umsókna þrír mánuðir. Kærandi lagði inn nýja umsókn 9. september 2020. Með bréfi fjölskyldu- og barnamálasviðs, dags. 16. september 2020, var kæranda tilkynnt að beiðni hans um fjárhagsaðstoð aftur í tímann væri synjað með vísan til 2. mgr. 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Fjölskylduráð tók mál kæranda fyrir á fundi þann 23. október 2020 og staðfesti synjun á beiðni hans um fjárhagsaðstoð frá febrúar 2020. Kærandi bar þá ákvörðun undir úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. janúar 2021. Með úrskurði nefndarinnar þann 15. apríl 2021 var lagt fyrir Hafnarfjarðarbæ að taka umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð frá 27. febrúar 2020 til efnislegrar afgreiðslu. Á fundi fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar þann 27. apríl 2021 var samþykkt að greiða kæranda fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 3. apríl til 31. ágúst 2020 en ekki var fallist á greiðslu fyrir tímabilið 27. febrúar til 2. apríl 2020 með vísan til 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Fjölskylduráð tók mál kæranda fyrir á fundi þann 4. júní 2021 og staðfesti ákvörðun fjölskyldu- og barnamálasviðs. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 9. júní 2021.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. júní 2021. Með bréfi, dags. 1. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 9. ágúst 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. ágúst 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greidda óskerta fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ frá dagsetningu fyrstu umsóknar, eða 26. febrúar 2020. Þá krefst kærandi þess að hæstu leyfilegir dráttarvextir verði lagðir á greiðslu fjárhagsaðstoðarinnar. Enn fremur krefst kærandi þess að fjölskylduráði Hafnarfjarðarbæjar verði veitt áminning fyrir ófaglega afgreiðslu málsins.

Kærandi greinir frá því að hann hafi kært afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á umsókn um fjárhagsaðstoð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Með úrskurði hafi úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að Hafnarfjarðarbæ bæri að taka umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð frá 26. febrúar 2020 til efnislegrar afgreiðslu. Fjárhagsteymi fjölskyldu- og barnamálasviðs Hafnarfjarðarbæjar virði úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála að vettugi og sé sú niðurstaða staðfest af fjölskylduráði bæjarfélagsins. Það sé ótækt að stjórnvald virði ekki ákvörðun æðra stjórnvalds og því fari kærandi fram á að þeim aðilum, sem beri ábyrgðina innan stjórnsýslu Hafnarfjarðar, verði veitt áminning fyrir afgreiðslu málsins.

Niðurstaða bæjarfélagsins sé sú að kærandi eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð frá umsóknardegi til 2. apríl 2020 með vísan í 8. grein reglna bæjarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Um sé að ræða skil á gögnum frá Vinnumálastofnun sem ekki hafi verið til fyrr en þann 7. maí 2020. Sú saga sé rakin í málsgögnum er hafi fylgt fyrri kæru. Kærandi mótmæli þessari ákvörðun Hafnarfjarðar harðlega.

Hafnarfjarðarbær hafi greitt hluta af þeirri kröfu sem kærandi hafi upphaflega sett fram. Í ljósi þess hve langur tími sé liðinn og ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að yfirmenn í stjórnsýslu bæjarins hafi barist fyrir því að tefja málið sé ekki hjá því komist að krefjast dráttarvaxta á umrædda upphæð. Krafan eigi bæði við um það sem þegar hafi verið greitt sem og það sem sé ógreitt.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi lagt inn umsókn um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ í febrúar 2020 og fengið leiðbeiningar um hvaða gögnum þyrfti að skila inn til að umsókn fengi afgreiðslu, meðal annars staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi skilað staðfestingu frá Vinnumálastofnun frá árinu 2014 en hafi verið bent á að skila þyrfti nýrri staðfestingu. Kærandi hafi sent inn nýja umsókn til Vinnumálastofnunar en ný staðfesting um að hann ætti ekki bótarétt hafi ekki borist til Hafnarfjarðarbæjar fyrr en í september 2020. Kærandi hafi lagt inn nýja umsókn um fjárhagsaðstoð þann 9. september 2020 en hafi óskað eftir að fá greiðslur frá febrúar, eða frá þeim tíma þegar hann hafi fyrst lagt inn umsókn. Þar sem gildistími umsókna um fjárhagsaðstoð, samkvæmt reglum Hafnarfjarðarbæjar þar um, sé alla jafna þrír mánuðir hafi verið talið að líta yrði svo á að um nýja umsókn væri að ræða og hafi umsókn hans um fjárhagsaðstoð frá febrúar verið synjað á afgreiðslufundi ráðgjafarteymis fjölskyldu- og barnamálasviðs þann 15. september 2020 með svohljóðandi bókun: „Beiðni umsækjanda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann er synjað með vísan til 2. mgr. 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem fram kemur að fjárhagsaðstoð sé greidd frá umsóknardegi, en umsókn var ekki lögð fram fyrr en 9.9.2020.“ Kærandi hafi skotið þessari ákvörðun til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem hafi staðfest hana þann 23. október 2020 með svohljóðandi bókun: „Fjölskylduráð staðfestir niðurstöðu ráðgjafarteymis um að synja beiðni umsækjanda um fjárhagsaðstoð frá febrúar þegar fyrst var lögð fram umsókn um fjárhagsaðstoð, en skv. 1. mgr. 6. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð er gildistími umsóknar að jafnaði þrír mánuðir. Ný umsókn var lögð fram 9. september og miðast afgreiðsla fjárhagsaðstoðar við þá dagsetningu, sbr. 2. mgr. 6. gr. áðurnefndra reglna.“

Kærandi hafi kært niðurstöðu fjölskylduráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hafi kveðið upp úrskurð, dags. 15. apríl 2021, þar sem lagt hafi verið fyrir Hafnarfjarðarbæ að taka umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð frá 27. febrúar 2020 til efnislegrar afgreiðslu. Í framhaldi af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar hafi málið verið lagt fyrir afgreiðslufund ráðgjafarteymis fjölskyldu- og barnamálasviðs og samþykkt fjárhagsaðstoð frá 3. apríl til 31. ágúst 2020, eða frá þeim degi sem kærandi hafi sótt um hjá Vinnumálastofnun, en hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð frá 27. febrúar til 2. apríl 2020. Bókun fundarins hafi verið svohljóðandi: „Beiðni umsækjanda um fjárhagsaðstoð frá 27. febrúar 2020 til 2. apríl 2020 er synjað með vísan til 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem umsækjandi framvísaði ekki tilskildum gögnum frá Vinnumálastofnun. Beiðni umsækjanda um afturvirka fjárhagsaðstoð frá 3. apríl 2020 til 31. ágúst 2020 er samþykkt.“

Hjá Hafnarfjarðarbæ séu í gildi reglur um fjárhagsaðstoð sem samþykktar hafi verið í maí 2020. Í 1. mgr. 6. gr. þeirra segi að fjárhagsaðstoð skuli að öðru jöfnu greidd einn mánuð í senn og skuli ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Þá segi í 2. mgr. að fjárhagsaðstoð sé greidd frá umsóknardegi. Kærandi hafi fyrst sótt um fjárhagsaðstoð þann 27. febrúar 2020 en umsókn hans hafi ekki verið afgreidd þar sem tilskilin gögn hafi ekki borist fjölskyldu- og barnamálasviði. Staðfestingu hafi vantað frá Vinnumálastofnun um að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum en í 3. mgr. 8. gr. reglna Hafnarfjarðarbæjar um fjárhagsaðstoð segi að skila þurfi tilskildum gögnum frá Vinnumálastofnun þegar sótt sé um fjárhagsaðstoð og umsækjandi sé atvinnulaus. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun umsókn um umbeðin gögn þann 3. apríl 2020.

Hafnarfjarðarbær hafi nú farið að fyrirmælum úrskurðarnefndarinnar og tekið umsókn kæranda til efnislegrar afgreiðslu og hafi niðurstaðan verið sú að hann ætti rétt á fjárhagsaðstoð frá þeim degi sem hann hafi lagt fram nýja umsókn hjá Vinnumálastofnun um staðfestingu á atvinnuleysi. Með vísan til framangreinds telji Hafnarfjarðarbær að rétt hafi verið staðið að málum við afgreiðslu erindisins.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að synjun Hafnarfjarðarbæjar um greiðslu fjárhagsaðstoðar til kæranda fyrir tímabilið 27. febrúar 2020 til 2. apríl 2020. Þá óskar kærandi eftir greiðslu dráttarvaxta og að sveitarfélagið verði áminnt fyrir ófaglega afgreiðslu málsins.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 5. mgr. 1. gr.  reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustunnar, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga nr. 40/1991 þar sem kveðið er á um félagslega ráðgjöf. Samkvæmt 6. mgr. 1. gr. reglnanna skal fjárhagsaðstoð veitt á formi framfærslustuðnings eða tilboðs um starf eða virkniúrræði. Tilgangur aðstoðar er að styðja einstaklinga sem aðstoðar njóta til sjálfsbjargar, gera þeim kleift að framfleyta sér og fjölskyldu sinni án aðstoðar og að stuðla að valdeflingu þeirra.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ 27. febrúar 2020 og var mánuði síðar beðinn um að skila inn staðfestingu frá Vinnumálastofnun um að hann ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Líkt og fram kemur í úrskurði í fyrra máli kæranda var það niðurstaða nefndarinnar að annmarkar hafi verið á afgreiðslu sveitarfélagsins vegna umsóknarinnar þess efnis að umsóknin hafi ekki verið afgreidd, þ.e. hvorki synjað né samþykkt. Í kjölfar úrskurðarins var umsóknin afgreidd og kæranda synjað um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir tímabilið 27. febrúar til 2. apríl 2020 með vísan til 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Í því ákvæði er meðal annars rakið hvaða gögn og upplýsingar umsækjandi skuli leggja fram með umsókn. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. skal umsækjandi sem er atvinnulaus framvísa tilskildum gögnum frá vinnumiðlun. Hafnarfjarðarbær hefur vísað til þess að kærandi hafi óskað eftir þeim gögnum frá Vinnumálastofnun 3. apríl 2020 og því hafi verið samþykkt að greiða fjárhagsaðstoð frá og með þeim degi.

Í 1. mgr. 6. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram sú meginregla að fjárhagsaðstoð skuli að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglnanna er fjárhagsaðstoð greidd frá umsóknardegi og að jafnaði er um eftir á greiðslur að ræða. Samkvæmt því er ljóst að réttur til fjárhagsaðstoðar miðast við dagsetningu umsóknar, en ekki hvenær sveitarfélag óskar eftir gögnum frá umsækjendum, hvenær umsækjendur óska eftir gögnum eða hvenær gögn berast sveitarfélagi. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Hafnarfjarðarbæ hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir framangreint tímabil með vísan til þess að fullnægjandi gögn hefðu ekki legið fyrir.

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til Hafnarfjarðarbæjar til nýrrar meðferðar.   

Í kæru er farið fram á greiðslu dráttarvaxta á greiðslur fjárhagsaðstoðar og að sveitarfélagið verði áminnt fyrir ófaglega afgreiðslu málsins. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með vísan til framangreinds er það ekki hlutverk úrskurðarnefndarinnar að áminna stjórnvöld eða að fjalla um greiðslu dráttarvaxta. Framangreindar kröfur kæranda eru því ekki tækar til efnismeðferðar. Að því virtu er þeim þætti kærunnar vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um að synja A, um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir tímabilið 27. febrúar til 2. apríl 2020, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

Þeim hluta kærunnar er varðar kröfu um dráttarvexti og að sveitarfélagið verði áminnt er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

                                                                    

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum